ÞAÐ VAR SKRÆPA

Andrés Indriðason

© Andrés Indriðason 1985

1.


Allt í einu
er byrjað að smíða
af fullum krafti
einhvers staðar fyrir utan.

Bjössi opnar augun.
Glugginn er opinn.
Sólin skín.
Hann dregur sængina
yfir höfuðið.

Hvaða hávaði er þetta
fyrir allar aldir?
Hver er að vekja allar
með þessum hamarshöggum?

Hann fer fram úr
og lítur út um gluggann.

Hann brosir breiðu brosi.
Kiddi og Raggi eru komnir út.
Það eru þeir
sem eru að vekja alla!
Þeir eru byrjaðir
að smíða dúfnakofa.
Þeir eru áreiðanlega
komnir út fyrir löngu.
Það eru allir komnir út.

Hann flýtir sér í bláa
fæðingargallann sinn.
Hann strýkur yfir ljóst hárið
með greiðu og burstar tennurnar.
Svo fær hann sér morgunmat,
mjólk og brauð.



Hann er einn heima
og bjargar sér alveg sjálfur.

Kiddi er besti vinur ans.
Þeir eru báðir níu.
Þeir hafa oft talað um
að það væri gaman
að eiga dúfur í kofa.

Það er fullt af dúfnakofum
allt í kring.

Það eru stórir kofar
og litlir kofar.
Þeir hafa sprottið upp
um sumarið.

Skrýtið að Kiddi
skuli vera með Ragga.
Þeir hafa aldrei
verið neitt mikið sama.
Skrýtið að hann skuli ekki
hafa sagt honum frá þessu.

Hann hugsar um þetta
um leið og hann
nær í hjólið sitt
í hjólageymsluna.

Svo hjólar hann til þeirra.
Hvað þetta er spennandi!



Kofinn sem þeir eru að smíða
er við göngustíginn
fyrir framan garðinn
heima hjá Kidda.

Ása er hjá þeim.
Hún er líka níu.
Hún er með hamarshöggum er að negla.

"Má ég líka vera með ykkur?"
kallar hann.
Kiddi og Raggi líta hvor á annan
og verða skrýtnir á svipinn.
Svo hristir Raggi höfuðið.
"Nei," segir hann, "Það er ekki hægt."

Hann heldur í fyrstu að þeir séu
að gera að gamni sínu.
"Af hverju ekki?"

"Af því að það geta
verið tveir," segir Raggi.

Raggi er tíu.
Það er leynir sér ekki
að hann er yfirsmiður.


Bjössi horfir undrandi á Kidda.
Það er eins og hann vilji
ekkert með hann hafa núna.
Hann skilur þetta ekki.
Hann langar svo mikið
til að vera með.
Þeir eru alltaf saman hann og Kiddi.
Nú er þessi Raggi Búinn
að taka hann frá honum.

"Eruð þið búnir að fá dúfur?"
spyr hann hikandi.
"Nei, ekki ennþá," segir Raggi
og er öruggur með sig.
"Við ætlum að veiða þær."

Bjössi horfir á hann.
"Má ég vera með, gerðu það!"

Raggi hristir höfuðið.
"Nei, það er best
að það séu ekki nema tveir.
Annars eru allir að fikta
í dúfunum."

Bjössi lítur niður fyrir sig.
Honum líður illa núna.
Það þýðir ekkert að deila við Ragga.
Hann er alltaf svo ákveðinn.



"Hvernig ætlið þið að veiða þær?"
spyr hann svo
og lítur til Kidda.
"Í gildru," segir Kiddi
stuttur í spuna.
Hann er að negla spýtu.
Raggi er hjá honum.
Hann heldur við uppistöðurnar.

"Hvaða gildru?"
"Þessa þarna!"
Kiddi bendir á gildruna
sem er skammt frá
"Við fengum hana lánaða hjá strák,"
segir hann.

Bjössi virðir hana fyrir sér.
Þetta er trékassi á hvolfi.
Botninn hefur verið tekinn úr
og vírnet sett í staðinn.
Lítið prik
heldur uppi öðrum endanum.
Í það er bundið snæri.
Inni í gildrunni eru brauðmolar.

Lítill polli
heldur í endann á snærinu.
Hann er í felum bakk við við grindverk.

Hann er tilbúinn að kippa í það
ef dúfa kemur
og fer að kroppa í molana.

Bjössi horfir
út undan sér á Ásu.
Nú er hún byrjuð að saga.
Af hverju fær hún að vera með þeim
en ekki hann?
Hann skilur það ekki.
Og af hverju segja þeir
að það geti bara veið tveir
þegar hún er líka?



Ása brosir til hans.
Hann lítur undan.
Hann bíður eftir að Kiddi og Raggi
segi eitthvað við sig
en þeir segja ekki neitt.

Kiddi er með svuntu
eins og smiðir hafa
utan yfir peysuna og gallabuxurnar.
Hann er líka með derhúfu.
Bjössi horfir á hann
og öfundar hann.
Hann er eins og alvöru trésmiður.

Raggi er í röndóttum bol
með stuttum ermum
og gallabuxum.
Það er dálítið skott
neðan úr dökku
hárinu.

Spýturnar eru í hrúgu
við fætur þeirra.
Raggi virðir þær fyrir sér.
Bjössi lyftir upp einni
með öðrum fætinum.
"Viltu þessa?" spyr hann.



Raggi horfir á hann önugur
og hristir höfuðið.
"Það er bannað að ónáða fólk
sem er að vinna."

2.


Bjössi fer heim.
Það er ekkert gaman
að standa eins og þvara
og horfa bara og fá ekkert að gera.
Það er ekkert gaman að vera úti.

Hann fer út í gluggann
þegar hann kemur inn til sín.
Hann horfir út
með hönd undir kinn.

Hann horfir yfir til Kidda og Ragga
sem vilja ekkert með hann hafa.
Hann horfir niður í garðinn
og út á fótboltavöllinn.



Alls staðar er krakkar að leika sér.
Það eru allir léttklæddir
að hoppa og skoppa í sólskininu.

Hvað hann vildi
að hann ætti systkini.
Það mætti meira að segja vera lítið
Hann gæti alveg passað það.
Það er ekkert eins leiðinlegt
og að þurfa að vera einn.

Pabbi og mamma koma ekki heim
fyrr en einhvern tíma seint,
pabbi sem er vörubílstjóri,
mann sem vinnur í banka.

Hann hugsaði um skólann
þegar hann fór að sofa
í gærkvöldi.
Hann hlakkaði til að byrja.
Nú hlakkar hann ekki lengur til.
Hann ætlar ekki að sitja hjá Kidda
eins og síðast.



Strákur sem hann hefur aldrei séð
rennir sér á hjóli
eftir göngustígnum
og sleppir höndum af stýrinu.
Iss, eins og þetta sé einhver vandi!

Handan götunnar
er verið að byggja bílskúra.
Hvað það væri gaman að vera smiður.
Að fá að smíða hús
eins og mennirnir þarna.

Hann fær allt í einu hugmynd.
Frábæra hugmynd.
Ef hann færi nú til þeirra
og bæði þá um spýtur!
Þá gæti hann smíðað kofa sjálfur.
Sinn eiginn dúfnakofa!

Kannski eiga þeir spýtur
sem hann getur fengið.
Kannski litla afgangs stubba.
Hann gæti alveg notað þá.

Hann klessir nefið að rúðunni
og lætur sig dreyma.
Hann andar á hana
og teiknar á hana
og teiknar dúfnakofa
í móðuna.

Á hann að þora?

Auðvitað!
Auðvitað á hann að þora.
Hann skal tala við þessa smiði.
Hann skal fá spýtur
einhvers staðar.
Hann skal smíða kofa.
Sinn eiginn kofa.
Stóran og fínan.

Hann brosir út að eyrum.

Dúfnakofinn hans
verður fínasti kofinn
í hverfinu.
Hann verður miklu fínni
en þessi ömurlega ljóti kofi
sem Kiddi og Raggi
eru að smíða!

3.


Hann fer út með hamar í hendinni.
Smiðirnir eru tveir
ungir og glaðlegir menn.

Annar er með hamar á lofti.
Hann er feitlaginn
með góðlegt andlit
og ljóst hár
sem er farið að þynnast.

Hinn er að saga
með rafmagnssögn.
Hann er hávaxinn
með svart hár og yfirskegg
og með vinalegt bros á vörunum.



Þeir láta hendur
standa fram úr ermum.
Bjössi horfir á þá.
Svo þagnar rafmagnssögin
og þá kallar hann til þeirra:
"Getið þið gefið mér spýtur?"

Þeir brosa til hans.
"Veistu það ekki, vinurinn,"
kallar smiðurinn með þunna hárið,
"að timbur kosta mikla peninga?"
Bjössi hikar og lítur undan.
"Ég þarf bara lítið,"
segir hann lágt og sparkar í stein.

Þeir gera hlé á vinnunni
og koma til hans.
"Hvað ætlarðu að gera við spýtur?"
spyr smiðurinn með yfirskeggið.
Bjössi vingsar hamrinum.
"Ég ætla að smíða kofa," segir hann.
"Dúfnakofa."

Smiðurinn með þunna hárið
brosir góðlátlega og spyr
hvar hann eigi að vera.



Bjössi bendir á autt svæði
við hliðina á bílskúrunum.
"Þarna!" segir hann.

Smiðurinn með yfirskeggið
leggur frá sér sögina.
"Ætli þýði nú nokkuð
að byggja þarna?" segir hann.
"Það á að fara að vinna
í þessari lóð.
Það á að slétta moldarhaugana
og svo á að setja þarna tré
og fallegan gróður næsta vor."

Bjössi hristir höfuðið.
"Það verður ekki strax."
Hann er allt í einu
orðinn ákveðinn
og öruggur með sig.
Alveg eins og Raggi.

Litlir stubbar
sem hafa verið sagaðir
af stórum spýtum
liggja fyrir fótum hans.
"Þurfið þið að nota þetta?"
spyr hann.

Smiðurinn með yfirskeggið
hristir höfuðið.
"Nei, nei. Þetta eru afgangar.
Þú mátt fá þetta."
Bjössi ljómar upp.

"En þarftu ekki líka þakpappa og vírnet?"
Bjössi hikar.
Í rauninni hafði hann ekki
hugsað svo langt.
"Jú — en ég fæ það bara
hjá einhverjum öðrum."

Hann safnar afgangs spýtum saman
og fer með fullt fangið
yfir á auða svæðið.
Hann fer margar ferðir.



Hann brosir með sjálfum sér
þegar hann er búinn að fá nóg
til þess að geta smíðað
heilan kofa.
Nú getur hann byrjað.
Nei, ekki alveg.
Auðvitað þarf líka nagla.

Smiðurinn með yfirskeggið
tekur handfylli af nöglum
upp úr svuntuvasa
og réttir honum

með rosi á vör.
Hann segist heita Steini
þegar Bjössi spyr.

Hinn smiðurinn heitir Þorvaldur.
Hann er kallaður Tolli.

Bjössi er í sjöunda himni.
Hann er búinn að eignast
tvo góða vini
í staðinn fyrir Kidda
— Steina og Tolla.



4.


Hann lætur hendur
standa fram úr ermum
Stærstu spýturnar
notar hann fyrir uppistöður.
Þær sem hann neglir á milli þeirra
eru misjafnar að lengd.
Hann ætlar að saga endana af seinna.

Krakkarnir sem voru að leika sér
í garðinum koma til hans.
Þau horfa á hann forvitnum augum.
"Ertu að smíða dúfnakofa?"
spyr lítil stelpa
með hauslausa dúkka í kerru.
Hann lítur ekki upp, jánkar bara.



Litlir pollar spyrja
hvor þeir megi hjálpa honum.
Hann hristir höfuðið.
"Nei. Það þarf að gera þetta vel.
Og það er bannað að ónáða fólk
sem er að vinna."

Allt í einu er Ása komin til hans.
Hann lætur sem hann sjái hana ekki.
Hún horfir á hann
og segir ekki neitt.
Í rauðri peysu
og ljósbláum smekkgallabuxum.
Með sítt, dökkt hár
og brún augu.

Hún á heima í sömu blokk og hann.
Á hæðinni fyrir ofan.
Einu sinni
var hann dálítið skotinn í henni.
Ekki núna.

Han er hissa
að hún skuli vera að koma.
Hann hélt að hún væri
með Kidda og Ragga.

Og af hverju skyli hún vera svona dauf í dálkinn?



"Ertu að smíða kofa?" spyr hún
þegar hún er búin
að horfa á hann lengi.

Hann svarar ekki.
Kinkar bara kolli
og neglir og neglir.
Vonar að hún fari.
En hún fer ekki.
Hún heldur áfram
að horfa á hann.

Hann sér út undan sér
að hún dregur tyggjó út í buxur.
Hún tekur það út úr sér
og rúllar því upp á vísifingur.
Svo stingur hún því upp í sig aftur
og blæs stóra kúlu,
— bang!

"Á hann að vera stór?"

Hann lítur til hennar önugur.



"Að minnsta kosti stærri en þessi
sem Kiddi og Raggi eru að smíða.
Ert þú ekki með þeim?"

Hún hristir höfuðið.
"Nei, ég var með .eim.
Ég er hætt."

Hann hættir að negla
og horfir á hana.
Þetta var skrýtið að heyra.

"Ertu hætt að vera með þeim?"
"Já."
"Af hverju?"
Hún sparkar í stein.
Svarar ekki.
Samt liggur henni eitthvað á hjarta.
Það sést alveg.

Hann horfir á hana.
Pollarnir horfa á hana.
Stelpan með hauslausu dúkkuna
horfir á hana.
Allir horfa á hana
en enginn segir neitt.

Svo kemur það upp úr henni:
"Þeir veiddu dúfu
og fóru svo illa með hana.
Það var skræpa."

Hann lætur hamarinn síga.
"Hvernig fóru þeir illa með hana?"

Hún sýgur upp í nefið
og hikar.
"Bara," segir hún svo.
"Þeir böggluðu hana
þegar þeir tóku hana úr gildrunni.
Svo hentu þeir henni.
Þá gat hún ekki flogið."



Hann horfir á hana hvumsa.
"Gat hún ekki flogið?"

"Nei."

"Af hverju ekki?"

"Ég hugsa
að þeir hafi vængbrotið hana."

Hann fær sting í brjóstið.
"Nei, heldurðu það?"
Heldurðu að þeir hafi vængbrotið hana
í alvöru?"

Hún kinkar kolli
og stynur dálítið.
"Já, ég er eiginlega viss um það."

Hann veiðir nagla
upp úr vasanum.
"Og hvað?"

"Ég náði í hana
og fór með hana heim."

"Fórstu með hana heim?"

"Já."

"Ertu þá með hana inni hjá þér?"

"Nei. Hún er í pappakassa niðri í þvottahúsi.
Þeir sögðust ekki vilja skræpur.
Bara flottar dúfur.
Ísara eða toppara."

5.


Pappakassinn er hjá þvottavélinni.
Þau leggjast á hnén
og lyfta upp lokinu.
Bjössi horfir á dúfuna
sem Kiddi og Raggi vildu ekki eiga.
Hún er dökkblá.
Það eru doppur og flekkir
út um allt.

"Hún er skræpótt," segir hann
og brosir.
"Þetta er líka skræpa," segir hún.
"Mér finnst hún falleg
þó að Kiddi og Raggi segi
að hún sé ljót og ómerkileg."



Hann horfir niður í kassann
og samsinnir þessu.
"Já. Hún er falleg
þó að hún sé bara skræpa."
Hann réttir höndina hikandi
niður til hennar.
Hann ætlar að taka hana upp.
Hún klórar í botninn
með öðrum fætinum
og víkur sér undan
þegar hann kemur við hana.

"Hún er svona hrædd,"
segir hann
og kippir að sér hendinni.
Ása brosir.
"Hefurðu aldrei haldið á dúfu?"
"Nei. En þú?"
"Já, oft.
Frændi minn á bréfdúfur.
Hann kenndi mér að taka þær upp.

Það á að setja handarbakið
þétt upp að bringunni
eins og það sé pallur
til að hoppa upp á.
Reyndu það."

Hann fer öðru sinni
með höndina niður í kassann.



"Þetta þýðir ekki neitt,"
segir hann mæðulega.
"Hún hreyfir sig ekki."
"Það er ekkert að marka, segir hún,
"þessi dúfa er ekki tamin.
Og hún er hrædd.
Svo er henni líka illt í vængnum."
Hann dregur aftur til sín höndina.
"Já, auðvitað."

Hann hafði ekki hugsað út í það
að dúfur geta lúka fundið til.

Þau horfa á hana um stund.
Hún kúrir í einu horninu
og hreyfir sig ekki.

"Eigum við
að láta hana heit eitthvað?"
segir hann svo.

"Já, já," segir hún.
"Eins og hvað?"

Þau hugsa sig um.

"Doppa!"
Það er Ása sem fær þessa hugmynd.

Hann brosir.
"Já, Doppa er fínt nafn fyrir hana
af því að hún er svo doppótt."

Hann dregur stóran bala til þeirra.
Þau setjast á hann
og horfa lengi á Doppu
án þess að segja nokkuð.



"Ætli hún sé svöng?"
segir hann loks.
"Nei, nei," flýtir hún sér að segja.
"Ég gaf henni brauð áðan.
Svo át hún líka fullt of brauði
í gildrunni."

Hann lítur upp
þegar hún segir þetta.
"Af hverju fékkst þú
að vera með Kidda og Ragga?"

Hún brosir.
"Ég lét þá fá þakpappa."
"Þakpappa?"
"Já. Þeir sögðu
að sá sem gæti útvegað þakpappa
mætti vera með þeim."

"Átt þú þakpappa?"
"Það er heil rúlla
niðri í geymslu hjá okkur, já.
Mamma sagði
að ég mætti fá henni.
Ég lét þá samt ekki
fá neitt ofsalega mikið."

Doppa er farin að krafsa
í botninn á kassanum
með öðrum fætinum.

"Hún vill komast upp úr honum,"
segir hann
og horfir niður til hennar.

Ása strýkur henni varlega
með handarbakinu
"Auðvitað vill hún komast út,"
segir hún.
"Auðvitað vill hún vera frjáls.
Eins og allir vilji það ekki?
Hún getur það bara ekki.
Hún getur ekki flogið."

"Það er satt,"
segir hann dapur í bragði.

"Auðvitað.
Hún getur ekki flogið."

"Hugsaðu þér," segir Ása
"Kanski hefði einhver köttur
ráðist á hana
ef ég hefði ekki tekið hana upp
og komið með hana hingað.
Hugsaðu þér bara!"

Það fer hrollur um hann.

"Já," segir hann. "Kannski
væri stóri kötturinn
hans Þormóðs á þrettán
búinn að gleypa hana í sig núna
ef þú hefðir ekki bjargað henni."

Hún kinkar kolli.
"Já kannski."

Hún fer með báðar hendur
ofan í kassann
og tekur utan um Doppu.
Hún lyftir henni upp,
hægt of varlega.



"Nú sér hún okkur betur."
"Já. Nú sér hún okkur."
"Ég finn alveg
hvernig hjartað í henni slær.
Vilt þú finna það líka?"

Hún lítur brosandi til hans.
Hann hikar.
"Það er allt í lagi
að halda á henni," segir hún.
"Hún goggar ekkert í mann."

Hann tekur á sigg rögg
og réttir fram báðar hendur.
Það birtir yfir honum
þegar hann tekur utan um hana.
Það er satt!
Hjartað í henni slær,
hann finnur það greinilega.
Hann strýkur varlega yfir fjaðrirnar,
silkimjúkar og heitar.
"Ekki vera hrædd, Doppa mín,"
hvíslar hann.
"Við ætlum ekki að gera þér neitt.
Við viljum bara vera góð við þig."



Svo fær hann allt í einu hugmynd.
"Nú veit ég hvað við gerum."
"Hvað?
"Við búum til spítala!"
Hún hlær. — "Spítala?"

"Já. Við búum til spítala
úr kofanum mínum.
Hún getur verið í honum
meðan henni er illt í vængnum.
Þegar henni er batnað
sleppum við henni.
Þá má hún fljúga í burtu.
Hvað segirðu um það?"

Hún horfir á hann og er hissa.
Svo brosir hún.
"Þetta er frábært!
Spítali með garðstofu!"

Hann leggur Doppu frá sér
niður í kassann.
"Garðstofu? Hvað meinarðu?"

"Æ, þú veist…
ég meina svona búr
með neti fyrir framan
svo að hún geti farið út
til að anda."

Hann skilur hvað hún á við
Þetta er góð hugmynd.
"Já, við skulum auðvitað
hafa garðstofu.
Þá komast kettirnir ekki í hana
þegar hún vill viðra sig."

Hún lítur til hans
með spurn í augunum.

"Sagðirðu *við*?
Má ég þá eiga hann með þér?"

Hann brosir út að eyrum.
"Auðvitað!
Þú kemur með þakpappann.
En það er best
að það séu ekki nema tveir."

6.


Smiðirnir eru farnir
þegar þau koma
að bílskúrunum.
Pollarnir eru farnir
og stelpan með hauslausu dúkkuna
er á bak og burt.
Og kofinn líka!
Bjössa bregður ónotalega.

Tveir menn í bláum samfestingum
eru búnir að brjóta í sundur
það sem hann var búinn að smíða.
Spýturnar sem hann var búinn
að bera út á mitt svæðið
eru komnar upp að bílskúrunum aftur.



Þau líta hvort á annað.
Bjössi hristir höfuðið.
"Ekkert fær nú að vera í friði!"

Svo fara mennirnir inn
í appelsínugulan bíl
og keyra í burtu.

"Þetta er allt í lagi,"
segir Bjössi.
"Ég var ekki kominn neitt langt.
Nú byrjum við bara upp á nýtt.
Við skulum hafa spítalann okkar
hérna hjá bílskúrunum
þar sem mennirnir settu spýturnar.
Það er miklu betra.
Þá get ég beðið Steina og Tolla
að passa hann fyrir okkur."

Ása lítur til hans.
"Steina og Tolla?
Hverjir eru það?"

Bjössi brosir.
"Það eru smiðirnir
sem eru að smíða
þessa bílskúra.
Þeir eru vinir mínir."

Þau láta hendur
standa fram úr ermum.
Þau hjálpast að og eru bæði yfirsmiðir.
Þetta verður bara lítill spítali
fyrir einn sjúkling.
Tíminn líður hratt.
Áður en þau vita af
er komið myrkur.

7.


Hann fer snemma á fætur
daginn eftir.
Hann flýtir sér niður í þvottahús
með brauðsneiðar í vösunum.

Pappakassinn er á sínum stað
hjá þvottavélinni.
Hann lyftir upp lokinu
og gægist ofan í hann.
Honum léttir.
Doppa bærir á sér.
Hann heyrir að einhvern er að koma.
Honum bregður dálítið
og hann hættir við
að taka brauðið upp úr vösunum.

Hann lítur við.
Mamma Ásu er að koma
með þvott í bala.

Hann brosir feimnislega
til hennar og lokar kassanum.
Hann tekur hann í fangið
og fer með hann inn í geymslu.
Hann er með geymslulykilinn.
í vasanum.

Hann hugsaði með sér
þegar hann vaknaði
að það væri betra
að geyma Doppu í geymslunni
en í þvottahúsinu.

Hér getur hún verið í friði
þangað til hún kemst á spítalann.



Hann sest á dekk
á gólfinu
og hefur kassann fyrir framan sig.
Tekur brauðið upp úr vösunum
og mylur það niður í hann.

Doppa kroppar í mylsnuna.
Honum hlýnar um hjartarætur.

8.


Hann leitar að Ásu.
Hún er ekki komin út.
Hann getur ekki haldið áfram
að smíða kofann.
Það vantar þakpappa.
Hann verður bara að bíða
eftir að hún komi.

Hann þorir ekki
að spyrja eftir henni.
Mamma hennar gætir farið
að tala við hann.
Hún gæti farið að spyrja hann
hvað hefði verið í pappakassanum
sem hann var með.

Hann fer til Kidda og Ragga.
Kofinn þeirra
er næstum tilbúinn.



Raggi er uppi á þaki
með hamar á lofti.
Kiddi er að saga enda af spýtu.
Hann lítur upp.
"Heyrðu," segir hann
og brosir út að eyrum.
"Þú mátt vera með okkur ef þú vilt.
Raggi vill það alveg."

Bjössi hristir höfuðið.
"Mig langar ekki til þess,"
segir hann.
"Við Ása erum að byggja kofa saman."

Raggi hlær.
"Litli kassinn hjá bílskúrunum!
Kallarðu það kofa?"

"Hann er alveg nógu stór,"
segir Bjössi.
"Við ætlum bara að hafa eina dúfu."

Raggi lítur til hans
þegar hann heyrir þetta
og springur af hlátri.
"Eina?
Iss… við ætlum að hafa tíu,
að minnsta kosti."

Kiddi kemur til hans
og er brosleitur.
"Ég veit um strák
sem getur látið okkur fá
æðislega flottan toppara.
Við getum fengið hann
fyrir ónýta vasadiskóið mitt."

"Svo ætlum við líka
að veiða alveg helling,"
bætir Raggi við
og hoppar niður af þakinu.

"Við erum hættir
með gildruna,"
segir Kiddi.
"Það koma engar
flottar dúfur í hana,
bara skræpur."



Raggi kemur til þeirra.

"Iss… það er enginn vandi
að ná í flottar dúfur.
Strákur sem ég þekki
setti spritt í brauð.
Svo komu dúfur
og gogguðu í það
og urðu alveg blindfullar.
Gátu ekki einu sinni flogið.
Sikksökkuðu bara svona…"




Hann veltist um
og sýnir þeim
hvað hann er að meina.
Kiddi hlær.

"Svo er hægt að skutla úlpum
yfir þær,"
heldur Raggi áfram.
"Það er alltaf hellingur
af flottum dúfum
niðri við Tjörn."

"Alveg satt," segir Kiddi.
"Við erum að spá í
að fara þangað á eftir."

"Og kannski upp
í Hallgrímskirkjuturn líka,"
segir Raggi ákafur.
"Við viljum bara flottar dúfur.
Ekkert rusl."

Þeir horfa á Bjössa.
"Hvernig dúfu ætlar þú að hafa?"
spyr Raggi.

Bjössi svarar ekki strax.
Hann sparkar í stein
og ypptir öxlum.
"Bara," segir hann svo.
"Bara einhverja flotta."

9.


Loksins kemur Ása út.
Bjössi hleypur til hennar.
Hún er með þakpapparúllu
undir hendinni.

Þau fara til Steina og Tolla.
Þeir eru uppi á þaki.
Bjössi veifar glaðlega til þeirra
með hamrinum.
Þeir veifa á móti og brosa.
Ása brosir líka.

"Það komu menn í gær
og rifu kofann minn,"
kallar hann til þeirra.

"Ég sé að þú ert að byggja nýjan
hérna hjá bílskúrunum!"
kallar Steini.

Bjössi vingsar hamrinum.
"Er það ekki í lagi?"

"Jú, jú,"
kallar Tolli brosandi.
"Það er allt í lagi."

Bjössi lítur ánægður til Ásu.
Hann tekur upp nagla
og neglir í spýtu
eins og alvöru smiður.
Hann sér að Steini og Tolli,
vinir hans,
eru að horfa á hann.
Og Ása er að horfa á hann.

Svo festa þau þakpappann á kofann
með litlum nöglum.
Þau hjálpast að
og negla bæði.
Bjössi er uppi á þaki
eins og Steini og Tolli.
Þetta verður fínn dúfnakofi.



Um hádegisbilið
koma Steini og Tolli
til þeirra.
"Þið þurfið að hafa hurð
á kofanum ykkar,"
segir Steini.
"Það er ekki nóg
að hafa bara stórt gat."

Bjössi brosir.
"Ég ætlaði bara að setja vírnet
fyrir gatið."
"Ég get fengið vírnet hjá manni,"
segir Ása.

"Það er gamall hengilás
í vinnuskúrnum okkar,"
segir Tolli.
"Þið getið fengið hann."

"Það þurfa líka að vera lamir
svo að það sé hægt
að opna hurðina
og loka henni,"
bætir Steini við.
"Við getum líka
hjálpað ykkur með það."

Bjössi brosir til Ásu
þegar þeir eru farnir
inn í vinnuskúrinn.
"Ég sagði þér
að þeir væru vinir mínir."

Það er enginn matartími
hjá þeim.
Þau halda aram að vinna.
Þau eru allan daginn
að búa til hurðina
og gatið fyrir hana á kofann.
Þau skiptast á að saga.
Það er erfitt
að saga þykkar spýtur.

Steini og Tolli hjálpa þeim
að setja lásinn og lamirnar á
áður ein þeir fara.

Þá er bara garðstofan eftir.

"Ég skal ná í vírnetið,"
segir Ása.
"Og ég næ í Doppu,"
segir Bjössi.

Svo hlaupa þau
sitt í hvora áttina.

Það er að koma myrkur.

10.


Hann hleypur upp stigana
og kallar til mömmu
í dyragættinni
að hann sé úti að leika sér.

"Ertu ekki orðinn svangur,
Bjössi minn?"
kallar hún til hans
úr eldhúsinu.

"Ekkert ofsalega,"
kallar hann á móti.
"Áttu kannski brauð?"
"Já, já,
ég skal smyrja brauð handa þér."



"Ekki smyrja neitt.
Ég vil bara brauðið."

Hún kemur til hans
og segir brosandi
að þetta sé eitthvað skrýtið.
"Þú ert ekki vanur
að borða þetta svona."
"Ég veit,"
segir hann
og tekur við þykkri brauðsneið.
Og brosir til hennar á móti.

11.


Hann situr á dekkjunum
og horfir niður
í pappakassann.
Skrýtið.
Doppa vill ekki þetta brauð.
Kannski vill hún bara franskbrauð.
Ekki svona dökkt.
Nema hún sé ekkert svöng.
Nema hún hafi bara étið yfir sig
í gær.

Hann setur báðar hendur
varlega ofan í kassann.
Hann er ekkert hræddur við
að halda á henni núna.



Hann tekur þétt utan um hana
eins og hann sá að Ása gerði
og lyftir henni upp.

Hann horfir
í þessi stóru augu
og skellir í góm.

Hún reigir sig
og hallar undir flatt.
Hann brosir.
Hvað honum þykir vænt um hana!

Hann leggur hana að vanga sér.
Hún er mjúk.
Og strýkur blíðlega
yfir fjaðrirnar.
"Bráðum batnar þér, Doppa mín,"
hugsar hann til hennar.
"Bráðum verður vængurinn þinn
góður aftur.
Þá verður þú frjáls."

Hann setur hana varlega
undir treyjuna
og heldur henni þétt að sér
með annarri hendi.

"Nú þarftu ekki lengur
að vera í þessum pappakassa.
Og ekki heldur
í myrkrinu í þessari geymslu."

Hann lítur niður til hennar
og brosir uppörvandi.
"Nú ertu að fara á spítala."

12.


Ása er byrjuð
að negla vírnetið
á garðstofuna.
Hann heldur fast um Doppu
og bíður eftir að hún ljúki því.
Svo tekur hann hana
undan treyjunni,
opnar hurðina
og setur hana varlega inn.

Hann læsir hengilásnum
og stingur lyklinum í vasann.
Það getur enginn
opnað þennan spítala.
Enginn nema hann og Ása.

Þau beygja sig niður
og bíða spennt eftir
að hún komi út í garðstofuna
að viðra sig.
En hún kemur ekki út.



"Hún er kannski þreytt,"
segir Ása.
Hann kinkar kolli.
"Kannski vill hún bara hvíla sig.
Kannski vill hún bara fara að sofa.
Það er gott.
Þá batnar henni líka fyrr."

13.


Nýr dagur rennur upp.
Sólin skín inn um gluggann
þegar Bjössi vaknar.
Mamma og pabbi eru farin í vinnuna.

Hann finnur að hann er svangur.
Hann gleymdi alveg í gær
að fara til Margrétar
á hæðinni fyrir neðan.
Hún gefur honum alltaf að borða
í hádeginu.

Best að koma við hjá henni núna
á leiðinni út.

Hann ætlaði aldrei
að geta sofnað
í gærkvöldi.
Hann var að hugsa svo mikið
um Doppu.

Svo hlustaði hann líka
á rigninguna
sem buldi á rúðunni.
Hann hugsaði um það
hvernig henni liði.

Ef spítalinn fylltist nú
af vatni!
Nei, það kæmi ekki að sök.
Hún gæti þá farið
yfir í garðstofuna.
Skyldi henni batna fyrr
á spítalanum?

Eða var það kannski vitlaust
af Ásu og honum
að vera að loka hana þarna inni?
Fór ekki bara betur um hana
niðri í geymslu?

Hann teygir úr sér.
Ýtir þessum hugsunum frá sér.
Best að koma sér á fætur
og athuga
hvernig sjúklingnum líður.
Hávaði utan af götunni
berst inn um opinn gluggann.
Hávaði í vinnuvélum.

Hann lítur út um gluggann.
Það er komin jarðýta
á auða svæðið
hjá bílskúrunum.



Hún er að ryðja burtu
moldarhaugum og stóru grjóti.

En bíðum nú við.
Hvað er hún búin að gera!
Hann hljóðar upp
þegar hann sér það.
Spítalinn!
Hún hefur keyrt yfir hann!
Hann trúir ekki sínum eigin augum
og reynir eins og hann getur
að fara ekki að gráta.

14.


Brakið af spítalanum
liggur í hrúgu
upp við bílskúrana.
Það eru stórir steinar
ofan á því.



Jarðýtan hefur hakkað hann í sig
með þessari stóru
og miskunnarlausu tönn
sem rótar öllu upp,
sama hvað er.

Svo hefur hún látið hann
detta þarna niður
og velt stórum steinum ofan á.

Hann horfir á manninn í ýtunni.
Hann er með heyrnarhlífar
til þess að þurfa ekki
að heyra neitt.
Hann heyrir ekkert og sér ekkert.
Það er eins og honum sé
alveg sama um allt.
Hann er þannig á svipinn þessi maður.
Ef hann vissi bara
hvað hann er búinn að gera.

"Bjössi!"
Það er kallað til hans.
Hann lítur við.
Steini smiður stendur í dyrunum
á vinnuskúrnum
og bendir honum á að koma til sín.
Hann brosir daufu brosi
og segist koma rétt strax.



Hann kreistir aftur augun.
Það er sár stingur í brjóstinu.
Hann rótar með tánum
í moldinni
og dregur vírnetið upp.
Svona fór þá fína garðstofan.

Svo fer hann inn í vinnuskúrinn
dapur í bragði.
Hann ætlar ekki að gráta
þó þetta sér sárt.

Steini og Tolli
eru að drekka kaffi.
Það eru kaffibrúsi
og bitabox
á borðinu hjá þeim.

"Nú fór í verra, vinurinn,"
segir Steini.
"Það á að fara
að slétta haugana hérna."
Hann lítur út um gluggann.
Jarðýtan rótar upp moldinni
og ýtir stórum steinum
á undan sér.

Bjössi segir ekki neitt.
Hvað á hann að segja?
Hvernig á hann að vera?
Var það bara þetta
sem Steini og Tolli
ætluðu að segja við han?

Tolli býður honum að setjast
og réttir honum kex.
"Nei takk,"
segir hann í hálfum hljóðum
og tyllir sér
á lúinn klappstól.
"Ég er ekkert svangur."

"Þeir komu bara í morgun með ýtu,"
segir Steini brosandi
og fær sér kaffisopa
úr brúsaloki.

Bjössi skilur ekki
af hverju Steini brosir svona.
Hann horfir niður á tærnar á sér.
Þetta er sárt.

Það heyrist skellur úti.
Ýtan er að moka mold
upp á vörubíl.

Kannski er Steina og Tolla
alveg sama.
Það er til fullt af dúfum í heiminum.
Þessi var ekkert merkileg.
Þetta var bara skræpa.

"Okkur brá í brún
þegar ýtan var komin,"
segir Steini.
"Hún sópaði kofanum í burtu."

"Þetta gerðist svo snögglega,"
segir Tolli.
"Við rétt náðum að bjarga henni."
Bjössi kippist við og lítur upp.
Hann horfir á Steina og Tolla
með spurn í augum.
Þeir brosa.



"Bjarga henni?" hváir hann
og heyrir hjartað í sér slá.
"Er hún þá … lifandi?"

Steini beygir sig niður
og hverfur bak við borðið.
Tolli er sposkur á svipinn.

Svo birtist Steini aftur.
Með Doppu í höndunum.
"Hún át meira að segja brauð
úr lófanum á mér,"
segir hann brosandi.

Bjössi starir á hana.
Hún reigir sig
alveg eins og þegar hann
hélt á henni sjálfur.

Hann brosir þakklátu brosi
til Steina og Tolla
og horfir á Doppu.
Og er allt í einu farinn að gráta.



15.


Hann fer með hana heim.
Hann hefur hana
undir treyjunni
og heldur þétt utan um hana.
Aldrei á ævinni
hefur hann verið svona glaður.

"Nú skaltu vera heima hjá mér
þangað til þér batnar,"
hugsar hann til hennar.
"Inni í herberginu mínu.
Ég skal alltaf hafa opinn gluggann.
Þegar þú getur flogið
þá skaltu vara fara.



Þá skaltu bara fljúga
eins og þú vilt."

Hann hellir bókum og legokubbum
úr gömlum dótakassa
og lætur hana ofan í hann.
Svo mylur hann niður brauð
handa henni.
Hann skal hafa hana hjá sér.
Sama hvað pabbi og mamma segja.

Hann sér út um gluggann
að Ása er hjá Kidda og Ragga.
Hann kallar til hennar að koma
en hún heyrir ekki til hans.

Í næstu andrá er han kominn út
til þeirra.
Þau eru niðurlút
og döpur á svipinn.

"Sástu hvað kom fyrir?"
segir hann við Ásu.
Hún kinkar kolli
og sýgur upp nefið.
Segir ekkert.

"Þú þarft ekki að vera neitt leið,"
segir hann brosandi.
"Smiðirnir björguðu henni."



Hún lítur undrandi til hans.
"Hvað segirðu!
Er hún þá ekki …?"
Bjössi hristir höfuðið.

Kiddi og Raggi horfa á hann
stórum augum.
"Er þetta satt?"
segir Kiddi.
"Bjargaðist hún?"

Bjössi brosir.
"Hún er meira að segja komin
heim til mín."

Ása á ekki til orð.
"Er hún þá niðri
í þvottahúsi?"
spyr hún loks hikandi.

"Nei ertu frá þér!"
segir Bjössi
og er öruggur með sig.
"Hún er inni hjá mér.
Ég má alveg hafa dúfur
inni í herberginu mínu.
Ég þarf ekkert að smíða
svona dúfnakofa.
Hún má fljúga um allt heima
þegar henni batnar í vængnum."

Raggi horfir undrandi á hann.
Hann á bágt með
að trúa þessu.

"Þið megið alveg vera með okkur
ef þið viljið,"
segir Kiddi.
"Við erum að fara að ná í
æðislegan toppara
hjá strák."

Bjössi hristir höfuðið.
Hann hefur ekki áhuga.
Og Ása ekki heldur.

16.


Þau fara í kapp upp stigann.
Hann er fljótari.
Hann er líka æfðari í
að taka tvær og tvær tröppur
í einu.

Þau koma inn í herbergið hans.
Læðast á tánum.
Þau ætla ekki að vekja Doppu
ef hún skyldi vera sofandi
eftir erfiða nótt.

En hvað er nú?
Þau líta ofan í kassann
og síðan hvort á annað.


Er hún sofandi?
Af hverju
er hún svona undarleg?
Af hverju
liggur hún svona út af?



Þau beygja sig niður á hnén
og virða hana fyrir sér.
Hugsa bæði það sama
en þora ekki að segja neitt.

Hann fer með höndina
ofurhægt niður í kassann.
Hikar.
Svo snertir hann voð henni
með fingri.

Hún er hörð.
Hún er dáin.

Hann kippir að sér hendinni
og hneigir höfuðið.
Reynir eins og hann getur
að gráta ekki.

Og hún líka.

17.


Þau koma út skömmu seinna
með skókassa og litla skóflu.



Sjá ekki stelpuna
sem horfir á þau
með hauslausu dúkkuna í fanginu.
Heyra ekki þegar hún spyr
hvað þau séu með.
Ganga út á grasið.



Þau leggjast á hnén við blómabeð.
Hann refur hol.
Hún setur kassann
ofan í hana
og svo moka þau yfir.
Þau liggja á hnjánum
og horfa ofan í moldina.
Engin orð
Bara fallegar hugsanir í hljóði.

"Við fengum hann!"
er allt í einu kallað glaðlega
fyrir aftan þau.

Þau líta við.
Kiddi og Raggi eru að koma.
Það liggur vel á þeim.
Þeir hlæja hátt
og hlaupa til þeirra.

Raggi heldur um magann
og skellihlær.
Hann er með eitthvað
undir bolnum,
eitthvað sem hreyfist.
"Hún kitlar mig!"
hrópar hann og veltist um.

Bjössi lítur á Ásu
og hristir höfuðið.
Hann hlær ekki
og ekki hún heldur.

"Passaðu að hún kafni ekki, maður!"
segir Kiddi hlæjandi.
Raggi hlær að þessu.
"Það er engin hætta á því.
Maður kann nú á dúfur!"



Hann dregur fram
mjallhvíta dúfu.
"Er hún ekki æðisleg þessi?"
segir hann sigri hrósandi.

Bjössi kinkar kolli.

"Svona topparar
kosta æðislega mikið,"
segir Kiddi
og ræður sér ekki fyrir kæti.

"Við fengum þennan
fyrir vasadiskóið hans,"
segir Raggi hróðugur.

"Þetta er ferlega verðmæt dúfa,"
segir Kiddi brosandi.
"Þetta er sko engin skræpa.
Það er nú hægt að fá þær
fyrir tuttugu kall eða minna."

Raggi samsinnir þessu
og strýkur yfir topparann.

"En ykkar dúfa,"
segir han svo.
"Hvernig er hún?"

"Já hvernig er ykkar dúfa?"
vill Kiddi líka vita.

"Okkar dúfa?
hváir Bjössi annars hugar.

Raggi og Kiddi
bíða spenntir eftir svari.

"Er það toppari eða ísari?"

Bjössi hristir höfuðið
og horfir niður í moldina.

"Hvað er það það þá?"

Hann lítur á þá og hikar.
Horfir líka á Ásu
sem segir ekki neitt.
Svo lætur hann það flakka:

"Það var skræpa."



Þeir springa af hlátri.
Hann lætur sem hann heri það ekki.
Lætur sem hann sjái ekki
gleði þeirra yfir fínu dúfunni.
Hann sér bara þessa þúst
í moldinni.

Handan götunnar er ýtan
að moka mold upp á vörubíl.
Það heyrist þegar grjótið
skellur á pallinn.

Hann lítur til Ásu
og brosir daufu brosi.
"Viltu koma að hjóla?"
Hún kinkar kolli og brosir líka.
"Eigum við að koma í kapp!"
"Já. Ef þú þorir!"
Það birtir yfir þeim báðum
og um leið kemur sólin
fram úr skýjum.



leiðréttingar